Kirgistan - óspillt náttúra og rótgróin menning

Fiðrildaferðir í samstarfi við Flandrr og Mountain Adventure Travel (MAT), ferðaskipuleggjanda í Kirgistan, bjóða upp á einstaka ferð til Kirgistan dagana 15.08 - 24.08 2025.
Kynningarfundur um ferðina verður haldinn þann 25.nóvember kl.18.00 á Kaffi Dal, sjá viðburð á Facebook hér

Allir velkomnir!

Kirgistan er landlukt ríki í Mið-Asíu þekkt fyrir sín stórkostlegu fjöll, víðáttumiklu sléttur og rótgrónu og ríka menningu. 

Kirgistan er land óspilltrar náttúru þar sem fólkið heldur enn í fornar hefðir, siði og menningu. Í fjöllunum búa hirðingjar sem hafa ekki breytt sínum lífsstíl í hundruðir ára. Landið er umkringt Tíbet-fjöllunum sem eru hluti af Himalaya og eru heimkynni hirðingjanna sem hér búa.

Kirgistan á landamæri að Kína í austri, Kasakstan í norðri, Tadsíkistan í suðri og Úsbekistan í vestri. Íbúarnir eru um 6,5 milljón og býr um 1 milljón þeirra í höfuðborginn Bishkek sem jafnframt er stærsta borg landsins.

Kirgisar eru meirihluti íbúa landsins en þar búa líka stórir hópar Rússa og Úsbeka. Kirgisíska er tyrkískt mál og er opinbert mál landsins ásamt rússnesku. 90% íbúa Kirgistans eru múslimar og meirihlutinn aðhyllist súnní íslam. Menning Kirgistans ber merki um áhrif Rússa, Mongóla og Írana. 

Kirgistan hefur verið hluti af ýmsum menningarsvæðum og stórveldum. Landið var hluti af Silkiveginum og öðrum verslunarleiðum um Mið-Asíu. Við upplifum m.a. það að fara í gegnum fjallaskarð í 3400m hæð og gista á hinum sögufræga silkivegi. 

Ferðaþjónusta er vaxandi í Kirgistan og landið dregur að sér ferðamenn sem vilja uppgötva náttúruna og sögu fólksins sem byggir landið. Síðan árið 2010 er Kirgistan talið öruggt land fyrir ferðamann og pólitísk vandamál eru ekki til staðar um þessar mundir. Smáglæpir og þjófnaður eiga á sér stað þar eins og víðast hvar annars staðar.

Ferðadagskráin er hönnuð fyrir fróðleiksfúst fólk sem vill upplifa eitthvað nýtt og framandi. Markhópurinn er fólk sem hefur áhuga á náttúru og menningu og vill bregða undir sig betri fætinum til að skoða nokkur náttúruundur sem verða á vegi okkar. Fólk sem vill kynnast heimamönnum og upplifa þeirra lífsstíl mun njóta sín vel í þessari ferð.

Gistingin sem boðið er upp á er þægileg og örugg. Í höfuðborginni er gist á 4ra stjörnu hóteli með loftklælingu en önnur gisting er í heimilislegum gistihúsum en auk þess verður gist tvær nætur í hefðbundnum Yurt tjöldum. 

Búast má við nokkrum gönguferðum sem geta verið allt frá 2 km upp í 6 km. Gönguferð síðasta daginn er valkvæð.

Ágúst mánuður er upplagður til ferðalaga til Kirgistan. Þá er sumar og búast má við hitastigi að meðaltali um 27°C, fer eftir því hvort dvalið er borgum eða í fjalllendi. Kvöldin inn til fjalla eru svöl en í höfuðborginni getur hitinn farið vel yfir 30°C yfir daginn. Upp til fjalla þar sem gist er í Yurt tjöldum getur hitastigið á kvöldin og nóttunni farið niður í 5°C. Úrkoma er venjulega ekki mikil á þessum árstíma. 

Tímamismunurinn er 6 tímar og er Kirgistan 6 tímum á undan Íslandi. 

Handhafar íslenskra vegabréfa þurfa ekki vegabréfsáritun og mega dvelja í landinu í allt að 60 daga. Hópurinn verður að hámarki 15 manns. 

Ferðalýsing

  • Flogið er í með Icelandair til Brussel kl. 07:35 um morguninn og þaðan áfram til Istanbúl með Turkish Airlines. Þriðji leggurinn er frá Istanbúl til Manas flugvallar í Bishkek, höfuðborgar Kirgistan. Lent er kl. 04:30 að morgni næsta dags. Þá er klukkan 22:30 á íslenskum tíma.

  • Rútur bíða okkur á flugvellinum þegar við lendum. Um 40 km eru frá flugvellinum til höfuðborgarinnar.

    Við innritum okkur eldsnemma um morguninn inn á hótel Plaza, sem er 4ra stjörnu hótel og hvílum okkur eftir flugin. Eftir morgunmat á hótelinu byrjum við borgarferðina okkar. Við heimsækjum Ala-Too torgið sem er  hjarta borgarinnar og  þar sem ríkissögusafnið er staðsett. Eftir það njótum við þess að ganga um í Eikargarðinum, einum af uppáhalds stöðum heimamanna. Bishkek  er þekkt sem grænasta borgin í Mið-Asíu, þökk sé ótal görðum og göngustígum sem gera borgina að frábærum stað til að búa. Við heimsækjum einnig Pobeda-torg, minnisvarða helgaðan sigri Sovétríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir hádegismat munum við hafa tíma til að heimsækja markaðinn, Osh bazar. Hér er hægt að upplifa  sköpunargáfu og hæfileika handverksfólksins. Um leið og stigið er inn á markaðinn hverfum við inn í austurlenska stemningu með fjölda fólks og mikla fjölbreytni og litagleði í vörum.

    Um kvöldið förum við á einn af bestu veitingastöðunum í borginni þar sem við fáum að smakka dýrindis kirgíska þjóðarrétti. Gist á Plaza hótel um nóttina. https://www.plazahotel.kg/ru/ 

  • Við borðum morgunverð áður en við skráum okkur út af hótelinu. Búast má við um 200 km akstri yfir daginn og er fyrsti hluti ferðarinnar u.þ.b 1 ½ tími í akstri. Dagurinn hefst með heimsókn í Burana-turninn sem er forn bænaturn í Chuy-dalnum í norðurhluta Kirgistan. Hann er staðsettur um 80 km frá höfuðborginni, nálægt borginni Tokmok. Turninn varðveitir muni úr grafreitum, kastalarústir og þrjú grafhýsi. Þetta er allt sem eftir stendur af hinni fornu Balasagyn-borg sem var stofnuð af Karakhanidunum í lok níundu aldar.

    Hádegisverður er borðaður hjá kirgískri fjölskyldu á leiðinni nálægt Burana-turninum. Eftir það höldum við áfram að Chon Kemin-gljúfrinu. Þetta er einstakur staður þökk sé ótrúlegri fegurð og ríkulegri fjölbreytni dýra og plantna. Við höfum tækifæri til að ganga um gljúfrið og virða fyrir okkur víðáttumikla fjallasýn. 

    Kvöldverð borðum við hjá fjölskyldu á gistiheimilinu. Gist á gistihúsinu Kemin um nóttina. https://maps.app.goo.gl/H2LpgEqgFBA5s1Pu7 

  • Í dag munum við halda að Issyk Kul sem er stórt saltvatnslón með dýpi allt að 700m (700 m. að dýpt) . Búast má við um 230 km akstri yfir daginn og göngu um gljúfur í um 1-2 tíma. Á leiðinni til Issyk Kul munum við stoppa í Kyzyl Tuu þorpinu þar sem heimamenn afhjúpa leyndarmál Yurt tjaldanna og hvernig þau eru búin til. Við fáum tækifæri til að læra af þeim og leggja þeim lið. Fjölskylda þessi  hefur stundað þetta einstaka handverk í margar kynslóðir.

    Í Bokonbaevo hittum við arnaveiðimann með fuglinn sinn en arnarveiði er ein af elstu hefðum kirgisa. Við fáum að fylgjast með hraða arnarins og aðferðum við veiðarnar. 

    Hádegisverður verður borðaður á gistiheimili.

    Þá bíður okkar hinn vel faldi Skazka dalur og glúfur sem eru oft eru kölluð ævintýragljúfin. Hér má finna klettamyndanir á ótrúlegum skala. Skýjakastalar og allskonar skrýtnar styttur verða á vegi okkar. Við reiknum með um 1-2ja tíma göngu um gljúfrin.

    Síðan höldum við áfram til Tosor sem stendur við vatnið. Þar fáum við að upplifa fyrstu nóttina okkar í Yurt tjaldbúð. Hægt er að fá sér sundsprett í vatninu eða hvíla sig á bakkanum. Við borðum saman kvöldverð í Yurt tjaldbúðinni.

    Salerni og sturtur eru í sér aðstöðu, útivið.

  • Eftir morgunverð leggjum við af stað til hins fallega Djety Oghuz gljúfurs þar sem við munum verja hálfum degi. Búast má við um 200 km akstri og klukkutíma göngu yfir daginn. Steinninn „broken heart“ varðar innganginn að gljúfrinu á sérstakan og rómantískan hátt. Á efra svæði Djety Oghuz eru einnig fjallavötn og fossar. Gangan að fossinum er u.þ.b. klukkustund. Málsverður verður í „picnic“ stíl í miðjunni á þessum einstaka stað.

    Þegar við komum til bæjarins Karakol heimsækjum við fræg kennileiti eins og rétttrúnaðarkirkjuna og Dungan moskuna. Karakol er fjórða stærsta borgin í Kirgistan, en ásýndar er frekar þorpsleg þar sem tíminn líður hægt og eins og hann hafi staðnað í Sovét-tímanum.

    Við heimsækjum Dungan moskuna, einstaka byggingu sem líkist kínverskri pagóðu. 

    Við höldum áfram til rétttrúnaðarkirkju hinnar heilögu þrenningar, sem trékirkja sem byggð er án þess að nota einn einasta nagla. 

    Við borðum kvöldverð já Dungan fjölskyldu sem er þjóðflokkur og samfélag múslima sem flutti frá Kína og settist hér að.

    Gist er á 70 Hotel.

  • Eftir morgunverð búum við okkur í göngu sem er um 3.5 km með um 500m lækkun. Fyrst keyrum við um 100km til Semenovka sem er talinn einn fallegasti staðurinn við Issyk-Kul vatnið. Þar finnum við fyrir furutré og grænar fjallshlíðar og heyrum vatnsniðinn í jökulánum. Akstur dagsins verður tæpir 300 km.

    Hér komum við að öðru smærra vatni sem er lengra inn í gljúfrinu þar sem við borðum nestið okkar. Gangan er sem áður segir um 3.5 km.

    Í Kochkor kynnumst við heimafólki og þeirra lífsháttum. Konurnar sýna okkur hvernig þær vinna felti, sem er ull sem blönduð er með dýrahárum og jafnvel trefjum.

    Einnig er möguleiki að kynnast listinni við að framleiða hefðbundin hirðingjateppi, sem kallast "Shiyrdak" og "Ala Kiiiz", með aðferð sem er viðurkennd af UNESCO heimsminjaskránni.

    Við gistum í gistiheimilinu Mira eða sambærilegri gistingu.

  • Eftir morgunverð leiða fallegir vegir okkur til Son Kul vatnsins og búast má við um 130 km akstri í dag. Við keyrum yfir Moldo Ashu fjallaskarðið sem er í 3.400 m hæð. Þaðan virðist vatnið fyrir neðan vera örsmátt en eftir því sem við göngum nær kemur í ljós hversu stórt og fallegt það er í raun og veru. 

    Við komum í Yurt tjaldbúðir þar sem við njótum gestrisni hirðingjanna, kynnumst lífsstíl þeirra og siðum. Við borðum kvöldverð í búðunum og gistum í Yurt tjöldum um nóttina. Sameiginleg salerni eru í sér aðstöðu, útivið.

  • Eftir morgunverð búumst við til heimferðar í átt að Bishkek þar sem gist verður á Plaza  þar sem ferðin byrjaði. Smátt og smátt nálgumst við höfuðborgina og við höfum tækifæri til að slaka á í rútunni og njóta útsýnisins á leiðinni. Búast má við tæplega 400 km akstri í dag.

    Við æjum í bænum Kochkor þar sem við fáum hádegisverð hjá fjölskyldu sem þar býr.

    Þegar komið er til Bishkek innritum okkur á hótelið en förum svo beint á markaðinn þar sem hægt er að gera góð kaup, kaupa gjafir og annað handverk sem gaman væri að taka með sér heim.

    Kvöldverður og gisting er á Plaza Hotel.

  • Hér hafa farþegar val um dægradvöl. Annað hvort er hægt að hafa það náðugt í borginni Bishkek eða fara í náttúruþjóðgarðinn í Ala Archa sem er í um 40 km fjarlægð frá höfuðborginni. Akstur sem búist er við yfir daginn er um 70 km.  Gangan hefst í 2.200m hæð og gengið er upp í 2.665m hæð. Um er að ræða 4-5 km göngu.

    Gengið er um gljúfrið og fjallasýnin skoðuð.  Landslagið er ósnert og 50 tindar skreyta þjóðgarðinn. Hann hefur allt sem má búast má við í svona fjallasal, snævi þakta tindaa, hraðskreiða læki, hásléttur og furuskóga.  Allt sem til þarf til að hvíla sig og slaka á eftir góða hringferð um Kirgistan. 

    Við njótum nestispakkans í þessu ferska lofti á leið inn að fossinum.

    Kveðjukvöldverður á veitingastað í Bishkek og gist á Plaza Hotel. Við borðum kannski í fyrra fallinu, því flugið daginn eftir er í bítið. 

  • Lagt af stað frá hótelinu á flugvöllinn kl. 03:30 . Flugtak kl. 05:55. Flugleiðin heim er í gegnum Istanbúl með Turkish Airlines til Osló. Frá Osló er flogið með Icelandair og áætluð lending er kl. 17:20 sama dag. Við vinnum til baka 6 tíma á heimfluginu

Verð

kr. 509.0000

2.manna herbergi

kr. 604.0000

Einbýli (athugið: Aðeins 1 í boði)

Skráðu þig í ferðina hér

ATHUGIÐ!

KYNNINGARAFSLÁTTUR TIL 1.DESEMBER !

Fyrstu 8 sem bóka sig í ferðina fá 50.000 króna afslátt!

Staðfestingargjald er kl.50.000 og greiðist við skráningu í ferð.

Gjaldið greiðist inn á reikning 133-26-016446, kt. 570224-1850.

Innifalið:

Flug til og frá Kirgistan.
Fullt fæði allan tímann ásamt einum lítra af vatni á hverjum degi.
Öll gisting á hótelum, gistiheimilum og í Yurt tjöldum með morgunverði.
Ferðast er á tveimur litlum rútum með loftkælingu. Reyndir bílstjórar fylgja hópnum allan tímann.
Enskumælandi staðarleiðsögumaður og íslenskur fararstjóri eru með allan tímann.
Allt sem talið er upp í ferðalýsingu, nema annað sé tekið fram.
Herbergin á Hotel Plaza í Bishkek eru með loftkælingu.

Ekki innifalið: 

Þjórfé
Matur um borð í flugvélum á leið til og frá Kirgistan. 
Áfengir drykkir. 

Valkvæð dægradvöl s.s. hestaferð og annað sem ekki er talið upp í ferðalýsingu. 

Skráðu þig í ferðina hér

Hér er kynningarmyndband á ensku um Kirgistan: https://youtu.be/WDc144SnT18?si=giOg5Fz1xaOiwblB

Fararstjórn

Fararstjóri f.h. Flandrr er Ágústa Sigrún Ágústsdóttir.

Hún hefur mannauðsstjórnun og markþjálfun að aðalstarfi en ræturnar hennar eru í söng og fararstjórn sem hún sinnir jafnhliða öðrum störfum. 

Ágústa er menntaður leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Íslands og hefur unnið við fararstjórn á Ítalíu, Króatíu og Slóveníu yfir 20 ár. Hún hefur einnig starfað sem leiðsögumaður á Íslandi fyrir ítölsku- og enskumælandi ferðamönnum um Ísland. Hún kannar nú nýjar slóðir. 

Ágústa heldur úti ferðabloggi undir nafninu Flandrr ferðamiðstöð þar sem hún varpar upp áhugaverðum vinklum um ýmislegt tengt ferðalögum: www.flandrr.is